20/04/2024

Brú yfir Bjarnarfjarðará í biðstöðu

300-leidbskiltiFram kom í Svæðisútvarpi Vestfjarða í gær að bygging á nýrri brú yfir Bjarnarfjarðará hefur tafist þar sem Vegagerðin hefur ekki tekið ákvörðun um brúarstæði. Jón Hörður Elíasson rekstarstjóri Vegagerðarinnar á Hólmavík segir málið í biðstöðu. Gamla brúin hafi verið styrkt og eigi að duga eitthvað áfram. Peningar sem áttu að fara í smíði nýrrar brúar í fyrra eru enn ónotaðir, en Jón Hörður segir vonir standa til að framkvæmdir við nýja brú komist í gang á næsta ári. Útboðið sé í undirbúningi.

Í byrjun september lauk vinnu við lagningu sjö og hálfs kílómetra kafla af bundnu slitlagi á Drangsnesvegi. Jón Hörður segir að útboð á kaflanum sem eftir er sé á milli Hólmavíkur og Drangsness sé nú í undirbúningi. Það er sex og hálfs kílómetra kafli á Strandavegi (nr. 643) sem tengir Drangsnesveg (nr. 645) við Djúpveg (nr. 61). Jón Hörður gerir ráð fyrir því að byrjað verði á malbikun á þessum kafla næsta sumar og að verkinu verði lokið árið 2009.

Um það bil áratugur er síðan búið var að leggja bundið slitlag milli allra annarra nálægra þéttbýlisstaða á Vestfjörðum, en slíkar vegabætur voru frá því snemma á síðasta áratug síðustu aldar ofarlega á forgangslista hjá Fjórðungssambandi Vestfjarða. Engin sérstök fyrirstaða er við vegalagningu í Steingrímsfirði milli þéttbýlisstaðanna Hólmavíkur og Drangsness og ekki yfir neina fjallvegi að fara. Strandamenn hafa einfaldlega verið skyldir eftir hvað varðar vegabætur á þessu sviði, meira en áratug lengur en aðrir staðir á Vestfjörðum.

Einnig kom fram í Svæðisútvarpinu að vonandi verður hægt að bjóða út breikkun á einbreiðu malbiki í Bitrufirði innan skamms.