28/03/2024

Breyttir tímar í tippleiknum?

Þá er komið að fjórðu umferð tippleiks strandir.saudfjarsetur.is. Þeir Þröstur Áskelsson og Jón Jónsson hófu leikinn sem hefur verið í járnum allt frá fyrstu umferð en þrjú jafntefli hafa verið gerð í jafn mörgum viðureignum og fjöldi réttra leikja hefur lækkað jafnt og þétt í hverri umferð. Spár kappanna hafa verið frekar svipaðar hingað til en nú bregður heldur betur við annan og hressilegri tón – Þröstur og Jón eru afskaplega ósammála um úrslitin í meirihluta leikjanna á seðlinum. Það verður því afar spennandi að fylgjast með því hvað gerist um helgina í tippleiknum og nokkuð öruggt er að líkur á jafntefli eru hverfandi.

Hér neðar gefur að líta spár og umsagnir spekinganna um leiki helgarinnar:


1. Charlton – Chelsea

Jón: Það er nú með ólíkindum að Charlton skuli ekki vera búið að tapa leik ennþá. Ég hef reyndar líka fulla trú á að Chelsea tapi stigum í vetur, geri jafntefli öðru hverju og tapi einum og einum leik. Það verður samt ekki á móti Charlton sem enda í neðri hluta deildarinnar eftir góða byrjun. Tákn: 2.
 
Þröstur: Bæði lið með fullt hús stiga. Charlton komið skemmtilega á óvart. Ég stóla á að Jón tippi á rússnesku mafíuseðlana og fari flatt á því. Tákn: X.
 
+++
 
2. Fulham – West Ham

Jón: Svipuð lið, West Ham virðist samt vera betur undirbúið fyrir keppnistímabilið, verða á skotskónum eftir frækinn sigur á Aston Villa í vikunni. Tákn: X.
 
Þröstur: Ætli þetta detti ekki Fulham megin. Tákn: 1.
 
+++
 
3. Sunderland – WBA

Jón: Sunderland lyftir sér úr botnsætinu með öruggum sigri á WBA sem byrjuðu tímabilið miklu betur en þeir áttu skilið. Tákn: 1.
 
Þröstur: Þá er komið að því að Sunderland vinni leik, eitthvað sem mun gerast sjaldan í vetur. Tákn: 1.
 
+++
 
4. Portsmouth – Birmingham

Jón: Heimasigur – mér líst vel á lið Portsmouth í vetur og held það endi í efri hluta deildarinnar. Tákn: 1.
 
Þröstur: Í fyrsta og eina skiptið á þessari leiktíð, vinnur Portsmouth 2 leiki í röð. Svo liggur leiðin niður á við. Tákn: 1.
 
+++
 
5. Aston Villa – Tottenham

Jón: Tottenham er betra liðið, en Aston Villa verður að taka sig taki eftir útreiðina í vikunni á móti West Ham. Þeir þurfa að hafa fyrir jafnteflinu. Tákn: X.
 
Þröstur: Erfiður leikur að tippa á. Villa hangir á jafntefli. Jón klúðrar þessum leik pottþétt. Tákn: X.
 
+++
 
6. Watford – Sheff. Utd.

Jón: Toppslagur í fyrstu deildinni, Watford ætti að vinna á heimavellinum. Tákn: 1.
 
Þröstur: Watford komið mér á óvart , bjóst við þeim lakari á þessari leiktíð. Besta lið deildarinnar kemur í heimsókn, útkoman pottþétt jafntefli. Tákn: X.
 
+++
 
7. Reading – Crewe
 
Jón: Reading hefur byrjað vel og heldur því væntanlega áfram á meðan Crewe á í mesta basli. Tákn: 1.
 
Þröstur: Þetta verður algjör niðurlæging fyrir Crewe. Reading rótburstar þá. Niður með Crewe! Tákn: 1.
 
+++

8. Wolves – Leicester

Jón: Úlfarnir ættu að taka þetta. Tákn: 1.
 
Þröstur: Jón heldur því fram að ég hafi einhverjar taugar til Úlfana, jú ætli það verði ekki að viðurkennast. Auk þess sökkar Leicester feitt! Tákn: 1.
 
+++
 
9. Q.P.R. -Leeds

Jón: Þetta verður ábyggilega markaleikur þótt hann líti hálf jafnteflislega út. Spái því samt að heimavöllurinn geri gæfumuninn. Tákn: 1.
 
Þröstur: Þegar maður getur engan veginn gert upp við sig hvort liðið maður ætti að tippa á er bara best að setja X. Sorrý Hreiðar. Tákn: X.
 
+++
 
10. Cardiff – C. Palace

Jón: Ég er ekki nógu vel að mér um þessi lið – hef ekki séð leik með Cardiff svo ég muni. Þröstur veðjar ábyggilega á heimasigur svo ég geri það bara líka. Tákn: 1.
 
Þröstur: Leiðindaliðið Cardiff á eftir að lenda í miklum hremmingum um helgina þegar Palace menn koma og berja á þeim; old Wimbledon-stæl. Tákn: 2.
  
+++
 
11. Brighton – Coventry

 
Jón: Hef ekki trú á að þessi lið eigi eftir að vinna marga leiki í vetur. Coventry þó ívið fleiri, en varla á útivelli. Tákn: X.
 
Þröstur: Enn og aftur tippa ég á Coventry. Það eru nú einu sinni 46 umferðir í deildinni, svo einhvern tíman mun ég hitta á sigur hjá þeim. Því miður ætlar það að taka nokkuð langan tíma (nú rekur Addi mig úr keppninni). Tákn: 2.
 
+++

12. Plymouth – Burnley

Jón: Burnley og Plymouth eru bæði að ströggla á botni deildarinnar með örfá stig, en það er reginmunur á markatölunni. Tákn: 2.
 
Þröstur: Öruggt hjá Plymouth. Tákn: 1.
 
+++
 
13. Sheff. Wed. – Millwall
 
Jón: Þessi eru líka bæði í fallsæti í deildinni, en stigin segja ekki allt. Vörnin hjá Sheffield er ágæt og þeir hafa verið óheppnir það sem af er, en hjá Millwall er vörnin eins og gatasigti. Tákn: 1.
 
Þröstur: Rasistaklúbburinn Millwall verður flengdur í Sheffield á laugardaginn, gott á helv… Niður með Millwall! Tákn: 1.
 
+++
 
Piltarnir klára síðan spárnar sínar á heldur dapurlegum og svartsýnislegum nótum. Það er greinilegt að þeir eru ekki ánægðir með árangurinn til þessa og búast ekkert sérstaklega við því að hann batni mikið um helgina (sjálfstraustið og vonin um sigur er þó greinilega enn til staðar þrátt fyrir öll jafnteflin):
 
Þröstur: Mér hefur ekki gengið svona illa að tippa á getraunaseðilinn í mörg ár. 4 réttir er til háborinnar skammar. Jákvæða hliðin er auðvitað sú, að þetta getur ekki orðið mikið verra. Svo er bara að vona að Jón taki mikla sénsa, og fari flatt á þeim. Liverpoolkveðja, Þröstur. You´ll never walk alone!
 
Jón: Mér þykir trúlegt að við Þröstur náum nú 6 réttum samtals í þessari umferð, fyrst fengum við 6 rétta hvor, svo 5 hvor og síðast 4 hvor um sig. Ætli Þröstur fái ekki svona 1-2 rétta af þessum 6 og ég afganginn.