11/09/2024

Bolvíkingar kampakátir

Bolvíkingar hafa fjölmennt í Perluna og sameinast um stóran bás, auk þess sem vermaðurinn úr Ósvör er á rölti um sýninguna og tónlistarmenn úr víkinni troða upp reglulega. Lögð er áhersla á mannlíf og menningu og sýnt frá ýmsum viðburðum á þremur stórum flatskjám, auk þess sem bein útsending er í gegnum vefmyndavélina frá Bolungarvík. Jónas sýslumaður er mættur með snúningsskiltið fræga frá Leið ehf sem snýst þegar í það er hringt. Þórður Vagnsson segir að mikill gróska sé í ferðaþjónustunni í Bolungarvík nú um stundir.

Nú er hægt að fá gistingu í Bolungarvík á þremur stöðum, því við íbúðagistinguna Hafðu það gott sem Vagnssystur standa fyrir hefur verið opnað Gistiheimilið Vaxon.is sem er opið allt árið og Mánafell ehf hefur einnig hafið að bjóða upp á íbúðagistingu. Veglegur veitingastaður, kaffihús og bar er svo í Kjallaranum og söfnin í Bolungarvík eru sívinsæl, Náttúrugripasafnið og Ósvör.

Menningardagskrá sumarsins er líka þétt skipuð í Bolungarvík. 10.-11. júní verður haldið upp á Sjómannadaginn með pompi og prakt og þá verður stórdansleikur með Björgvini Halldórssyni og Brimkló. Markaðsdagurinn sem reyndar er hátíð í heila helgi verður 30. júní – 2. júlí og Ástarvikan margfræga verður 13.-19. ágúst með fjölda viðburða.

Bráðskemmtileg vefsíða Bolungarvíkur er á slóðinni www.bolungarvik.is.

Ljósm. Jón Jónsson