28/03/2024

Bók full af þjóðráðum í krepputíð

Tvær galdraskræðurÞegar gluggað er í bókina Tvær galdraskræður sem Strandagaldur gaf nýverið út kemur í ljós að margt sem runnið hefur í gegnum huga þjóðarinnar undanfarið er hægt að takast á við. Hver kannast til dæmis ekki við að upplýsingastreymi til þjóðarinnar sé á köflum bágborið og hlutum haldið leyndum fram í rauðan dauðann? Í galdraskræðunum má meðal annars finna galdrarunu til að vita það sem alþýðu er dulið. Einnig er þar að finna þjóðráð til að snúa hugarfari manns eða jafnvel heillrar þjóðar ef einhver hefur á manni óþokka. Það er galdur sem mætti til dæmis reyna á forsætisráðherra Bretlands, sem er ekki vinsælasti maðurinn á Íslandi um þessar mundir. Einnig er að finna ótal galdraráð í bókinni fyrir hverskyns glettingar, s.s. að senda fretrúnir á menn en þær koma í veg fyrir að sá geti hvorki unnið þjóð sinni gagn né ógagn meðan magakveisan og niðurgangurinn stendur yfir.

Í bókinni er einnig að finna vináttustafi, sem ekki sýnist veita af, og aðferðir til að fiska vel og fleira gagnlegt. Bókina ráðagóðu er hægt að nálgast á Galdrasafninu á Hólmavík og einnig í sölubúð Strandagaldurs á vefnum. Slóðina inn á síðu bókarinnar Tvær galdraskræður má finna með því að smella hér.

Þetta er tvímælalaust hin eina sanna jólabók í ár og er sannarlega góð sjálfshjálparbók hnugginnar þjóðar sem rísa vill upp til vegs og virðingar á ný í samfélagi þjóðanna.

Myndin sem fylgir þessari frétt er galdur númer 100 í bókinni, á blaðsíðu 99, en bókin er iðulega komin í hendur kaupanda strax næsta virka dag eftir að pöntun hefur átt sér stað.