Categories
Frétt

Blásið til sóknar hjá Sauðfjársetri

Skemmtidagskrá Sauðfjárseturs á Ströndum fyrir árið 2009 hefur nú verið birt á vefsvæði þess og eftir því sem fram kemur þar hefur hún aldrei verið viðameiri, bæði hvað varðar fjölda og fjölbreytni. Meðal atriða á dagskránni er þriggja kvölda spilavist í febrúar, Spurningakeppni Strandamanna í mars og apríl, Furðuleikar fyrstu helgina í júlí og í ágústlok verður haldið Íslandsmeistaramót í hrútadómum auk veglegrar vegleg bændahátíðar og dansleiks í Félagsheimilinu á Hólmavík. Auk þess verður lögð áhersla á atburði sem tengjast útivist fyrir alla fjölskylduna. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Dagskrána má sjá með því að smella hér.

Arnar S. Jónsson hjá Sauðfjársetrinu segir Sauðfjársetrið vera mikilvægan aðila í menningarlífi á Ströndum og því megi hvergi slá af í viðburðahaldi: „Það er eiginlega samfélagsleg skylda aðila eins og Sauðfjársetursins að standa fyrir stórum og smáum atburðum, ekki síst á þessum síðustu og verstu. Það er auðvelt að gleyma kreppunni við að þukla hrúta og svo er jafnvel hægt að fá útrás gagnvart hinum og þessum aðilum í skítkastinu á Furðuleikunum. Við erum búin að bjóða hinum og þessum útrásarvíkingum að vera skotmark en höfum reyndar ekki fengið nein svör ennþá.“

Margt fleira er á dagskránni, t.d. kaffihlaðborð á ýmsum hátíðisdögum, dráttarvéladagur, kraftakeppni, fjörudagur, gönguferðir og safnadagur.