Categories
Frétt

Bílveltur og boðun í skoðun

Í fréttatilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að í liðinni viku voru höfð afskipti af 14 ökutækjum og eigendum þeirra gefinn frestur í 7 daga til að færa viðkomandi ökutæki til skoðunar. Þá voru sjö ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Ísafirði og í nágrenni Ísafjarðar. Þrjú umferðaróhöpp sem voru tilkynnt lögreglu urðu í vikunni. Fimmtudaginn 19. febrúar var ekið utan í vegginn á Vestfjarðargöngum, engin slys á fólki, en bifreiðin talsvert skemmd. Útafakstur varð við Guðlaugsvík í Hrútafirði á föstudaginn, þar hafnaði bifreið út fyrir veg. Talsverðar skemmdir urðu á bílnum, en ekki slys á fólki. 

Þá varð bílvelta á Óshlíð við Skarfasker, þar hafnaði bifreið á hliðinni upp fyrir veg, mikið tjón á ökutæki, en ökumaður slapp án meiðsla. Þá var ekið utan í bifreið við Hamraborg á Ísafirði og urðu minni háttar skemmdir. Lögregla vill brýna fyrir vegfarendum að akstursskilyrði eru erfið nú um mundir og breytast hratt og hvetur því lögregla vegfarendur til að taka tillit til þess og haga akstri eftir aðstæðum. Lögregla vill koma því á framfæri við gangandi vegfarendur að þeir noti endurskinsmerki og þeir fullorðnu verði þeim yngri til fyrirmyndar í þeim efnum. Ein minniháttar líkamsárás var kærð til lögreglu í liðinni viku.