05/11/2024

Beint frá býli á Hólmavík

Beint frá býli mun heimsækja Strandamenn á þriðjudaginn kemur, þann 29. apríl, en þá verður haldinn kynningarfundur um verkefnið og möguleika í heimavinnslu og heimasölu afurða. Erindi halda Marteinn Njálsson á Syðri-Bár sem er í stjórn verkefnisins og Árni Snæbjörnsson ráðunautur Bændasamtaka Íslands. Á fundinum verður m.a. rætt um sveitabúðir, bændamarkaði, matvælaklasa, færanleg sláturhús, Slow Food og Slow Travel, Fair Trade, græna ferðamennska, alþjóðavæðingu í matvælaframleiðslu, tækifæri smáframleiðenda og matarferðamennsku.

Allir sem áhugasamir eru um málið eru velkomnir, en ljóst að er fundurinn getur gagnast öllum þeim sem huga að atvinnusköpun, þróunarstarfi og uppbyggingu á svæðinu, auk þeirra sem málið snertir beinlínis eins og alla þá sem fást við matvælaframleiðslu í stórum eða smáum stíl, ferðaþjónustu, verslun eða veitingarekstur. Kynningin getur einnig komið sveitarstjórnarfólki og öðrum sem huga að nýsköpun í atvinnulífinu að góðu gagni, bæði beint og óbeint, því auðséð er að tækifærin eru fjölmörg og vel má yfirfæra hugmyndafræðina í verkefninu yfir á annars konar matvælaiðnað, fiskvinnslu og bjórframleiðslu svo ólík dæmi séu nefnd.

Fundurinn verður samkvæmt tilkynningu haldinn í Þróunarsetrinu á Hólmavík og hefst kl. 13:00. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur alla sem áhuga hafa á jákvæðri byggðaþróun á Ströndum, matvælaframleiðslu og matarmenningu til að mæta á staðinn og bendir á að hægt er að skrá sig á póstlista verkefnsins á www.beintfrabyli.is.