04/10/2024

Bangsadagur á bókasafninu í dag

HéraðsbangsinnÍ dag verður haldinn svokallaður Bangsadagur á Héraðsbókasafninu Strandasýslu á Hómavík og hefst atburðurinn kl. 18:00. Lesin verður bangsasaga og fleira til gamans gert og eru allir sem áhuga hafa hvattir til að mæta og taka uppáhaldsbangsana með sér. Bókasöfn víða á Norðurlöndum hafa haldið Bangsadaginn hátíðlegan síðan 1998, en þetta er í fyrsta skipti sem bókasafnið á Hólmavík tekur þátt í deginum. Það er vel viðeigandi að tengja bangsa og bókasöfn saman á þennan hátt því bangsar eru söguhetjur margra vinsælla barnabóka.

Auk þess eru bangsar eitt vinsælasta leikfang sem framleitt hefur verið og flestir eiga góðar minningar tengdar uppáhalds bangsanum sínum. Því eru bangsar tákn öryggis og vellíðunar í huga margra og er eftirsóknarvert fyrir bókasöfnin að tengja sig þeirri ímynd og styrkja sömu þætti í ímynd bóka og bókasafna.

Dagurinn sem bangsavinir hafa valið sér fyrir alþjóðlega Bangsadaginn er 27. október, afmælisdagur Theodore Roosevelt fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Teddy Roosevelt var mikill skotveiðimaður og sagan segir að eitt sinn þegar hann var á bjarnarveiðum hafi hann vorkennt bjarnarhún sem var búið að hundelta, króa af og binda við tré fyrir hann, svo forsetinn færi ekki tómhentur heim úr veiðiferð, en hann neitaði svo að skjóta húninn sjálfur. Washington Post birti pólitíska skopmynd af þessu atviki sem vakti mikla athygli.

Búðareigandi einn í Brooklyn, New York varð svo hrifinn af þessari sögu að hann bjó til leikfangabangsa sem hann seldi sem "Bangsann hans Teddy" (Teddy’s Bear). Það má segja að þetta hafi verið upphaf af sigurgöngu leikfangabangsans um allan heim.

Skopmyndin sem varð kveikjan að bangsaæðinu. Hún er eftir Clifford K. Berryman og heitir Drawing the line in Mississippi. Það er athyglisvert hvernig Berryman teiknar bjarnarhúninn því hann líkist meira seinni tíma leikfangaböngsum heldur en alvöru bjarndýri.