Categories
Frétt

Sólstafir að kvöldi 17. júní

Sólstafir yfir Hólmavík – ljósm. Jón Jónsson/strandir.saudfjarsetur.is

Hátíðahöld gengu að óskum á þjóðhátíðardaginn 17. júní á Hólmavík. Farið var í skrúðgöngu frá Íþróttamiðstöðinni og á galdratúninu voru skemmtiatriði. Það er ungmennafélagið Geislinn sem sér um dagskrána á Hólmavík þann 17. júní. Um 100 manns mættu á þjóðhátíðarkaffihlaðborð á Sauðfjársetri á Ströndum í tilefni dagsins.

Categories
Frétt

Kynning á verkefni um örnefni og þjóðtrú

Matthias við annan af tveimur Selkollsteinum í landi Bassastaða – ljósm. Jón Jónsson/strandir.saudfjarsetur.is

Þýski fræðimaðurinn Matthias Egeler er nú gestafræðimaður hjá Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og dvelur á Ströndum við rannsóknir í hálft ár. Matthias starfar við rannsóknir hjá Stofnun um skandinavísk fræði og trúarbrögð hjá Ludwig-Maximilians háskólanum í München í Þýskalandi. Hann mun halda opinn fyrirlestur á ensku um verkefnið og rannsóknir sínar á Galdrasýningu á Ströndum þriðjudaginn 18. júní kl. 18:00 og eru öll áhugasöm velkomin.

Á Ströndum vinnur Matthias að ritun bókar um samspil landslags, trúarbragða og hins yfirnáttúrulega. Viðfangsefni bókarinnar er óvenju ríkulegur menningararfur Strandamanna sem felst í örnefnum og sögum tengdum þeim. Margir staðir eru t.d. tengdir Guðmundi biskup góða og margvíslegum yfirnáttúrulegum verum og vættum. Út frá landslaginu sjálfu reynir Matthias að skilja betur hvernig hið yfirnáttúrulega og hið heilaga er tengt landinu.

Stefnan er að væntanleg bók muni kynna þennan magnaða efnivið betur, jafnt á sviði trúarbragðafræða, þjóðfræði og örnefnarannsókna.

Categories
Frétt

Fuglalífið í blóma

Æðarfugl á Ströndum – ljósmyndir Jón Jónsson/strandir.saudfjarsetur.is

Það er fjör í fuglalífinu á Ströndum þessa dagana. Sumar æðarkollurnar eru komnar með unga, en aðrar er nýbúnar að verpa. Sama gildir um tjaldinn og víða eru líka farnir að sjást gæsar- og álftarungar. Teisturnar verptu snemma í júní og von er á ungum úr eggjunum í byrjun júlí. Kríuungar sjást ekki enn, en dálítið af eggjum.

Categories
Frétt

Þjóðhátíðarkaffi og skemmtun á Hólmavík

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní verður að venju haldinn hátíðlegur á Ströndum. Á Hólmavík stendur Ungmennafélagið Geislinn fyrir skemmtun og byrjar undirbúningur við íþróttamiðstöðina kl. 11:00. Síðan verður farið í skrúðgöngu niður á Galdratún og lagt af stað kl. 11:30. Þar verða hátíðarhöldin, fjallkona, tónlistaratriði og hoppukastalar.

Síðar um daginn verður þjóðhátíðarkaffihlaðborð á boðstólum á Sauðfjársetrinu í Sævangi og stendur það frá kl. 14:00-18:00. Verð á hlaðborðið er 2.000.- fyrir 13 ára og eldri, 1.300.- fyrir 7-12 ára og frítt fyrir 6 ára og yngri. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is mælir með því að fólk fagni Þjóðhátíðardeginum, hittast yfir góðum kaffibolla, gæði sér kökum og kræsingum og spjalli saman um daginn og veginn.

Categories
Frétt

Gönguferð í Geiradal

Byggðasafn Dalamanna og Sauðfjársetur á Ströndum munu halda áfram samstarfi sínu frá fyrra ári um sögurölt í sumar. Á fjórða hundraðið mættu í rölt í fyrra, oft í roki og rigningu. Fyrsta sögurölt sumarsins verður þó hvorki í Dölum né Ströndum, heldur í Gautsdal í Geiradal miðvikudaginn 19. júní í samstarfi við Karl Kristjánsson og Svanborgu Guðbjörnsdóttir (Kalla og Lóu) bændur á Kambi. Lagt verður af stað frá hlaðinu í Gautsdal stundvíslega kl. 19:30.

Skoðaðar verða tóftir af bænhúsi, leifar af gamalli heimarafstöð (túrbínan er varðveitt og til sýnis á Byggðasafni Dalamanna), forn skilarétt Geirdælinga, Réttarfoss í Gautsdalsá og annað sem á vegi hópsins verður.

Dalamenn, Strandamenn, íbúar Reykhólahrepps og aðrir gestir eru velkomnir í röltið. Þar gefst fólki færi á að hreyfa sig hæfilega, hlusta á sögur og ekki síst til að hitta mann og annan úr þessum þremur héruðum.

Categories
Frétt

Skemmtiferðaskip á Hólmavík

Panorama í Hólmavíkurhöfn – ljósm. Jón Jónsson/strandir.saudfjarsetur.is

Skemmtiferðaskipið Panorama kom til Hólmavíkur 13. júní með farþega, en um er að ræða skútu sem tekur mest 50 slíka. Þetta er fyrsta skipti sem Hólmavík er viðkomustaður í skipulagðri ferð slíkra skipa og mun skipið koma nokkrum sinnum í viðbót í heimsókn til Hólmavíkur í sumar.

Farþegar nýttu ýmsa þjónustu í landi á meðan skipið stoppaði, fóru út að borða, versluðu handverk og skoðuðu söfn, auk þess sem þau fóru í skipulagða ferð um nágrenni Hólmavíkur.

Categories
Frétt

PubQuiz á Galdrasýningunni

Föstudagskvöldið 14. júní verður bráðskemmtilegt PubQuiz á Galdrasýningu á Ströndum. Spurningarnar verða að þessu sinni bæði á íslensku og ensku, þannig að fleiri geti tekið þátt í keppninni. PubQuiz-ið byrjar kl. 20:00

Categories
Frétt

Dagbók frá 1918

Eitt af þeim verkefnum sem Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa og Sauðfjársetur á Ströndum unnu saman að á árinu 2018 var uppsetning sýningar og viðburðahald í Sauðfjársetrinu í Sævangi í tengslum við 100 ára fullveldisafmælið, undir titilinum Strandir 1918. Unnið var með fjölmargar heimildir til að varpa ljósi á líf og störf Strandamanna fyrir 100 árum, m.a. dagbækur. Ein þeirra var dagbók Þorsteins Guðbrandssonar á Kaldrananesi sem varðveitt er í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Jólaglaðningur Rannsóknasetursins og Sauðfjársetursins til Strandamanna snýst um að gera uppskrift á þessari dagbók frá árinu 1918 aðgengilega hér á vefnum, ykkur til fróðleiks og ánægju. Hægt er að skoða dagbókina frá 1918 og smá fróðleik um hana hér á vefnum strandir.saudfjarsetur.is eða hlaða niður og opna pdf-skjal með því að smella á tengilinn neðan við rammann á síðunni. Gerið þið svo vel – slóðin er: http://strandir.saudfjarsetur.is/thorsteinn-gudbrandsson-i-kaldrananesi-dagbok-1918.

Categories
Frétt

Grænfánanum flaggað á Hólmavík

Á dögunum fékk Grunnskólinn á Hólmavík Grænfánann afhentan í fjórða sinn með mikilli viðhöfn. Haldinn var atburður í Félagsheimilinu á Hólmavík og öll sem áhuga höfðu boðin velkomin þangað. Boðið var upp á kynningu á verkefninu, fulltrúi Landverndar afhendir síðan fánann og hann var dreginn að húni við félagsheimilið. Foreldrar og skólabörn kepptu í flokkunarleik og umhverfislag skólans var sungið af hópnum öllum.

Grænfáninn afhentur – ljósm. Jón Jónsson/strandir.saudfjarsetur.is

Categories
Frétt

Heyrúllustæður á Hólmavík

Heilmiklar stæður af heyrúllum hafa verið fluttar til Hólmavíkur síðustu dag og bíða nú útflutnings til Noregs. Skip kemur að sækja rúllurnar, líklega á aðfangadagskvöld, og verður rúllunum skipað út þegar mesta jólahelgin er liðin hjá og áður en flugeldafjörið byrjar. Bændur á Ströndum og Reykhólahreppi senda 2000-2400 rúllur út í þessari ferð.