13/10/2024

Atvinnufrelsið endurreisir Vestfirði

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson
Ísfirðingar héldu fjölmennan og kröftugan borgarafund fyrir skömmu og gerði þingmönnum og öðrum frambjóðendum kjördæmisins grein fyrir því hvernig þeir litu á alvarlega búsetuþróun á Vestfjörðum. Farið var fram á að þeir íhuguðu skilaboðin og kæmu svo með sín svör þegar nær drægi kosningum.

Fækkun starfa um 500 og fækkun íbúa um 21% á aðeins 12 árum er meira en alvarleg þróun. Lækkun meðalatvinnutekna um líklega fjórðung í samanburði við höfuðborgarsvæðið til viðbótar hinum atriðunum lýsir ört hnignandi byggð. Þessar kennitölur útskýra hvers vegna borgarafundurinn var haldinn. Fólk sækist eftir góðum lífskjörum og flytur þangað sem þau eru best. Störfin sem áður drógu fólk vestur eru orðin færri og ekki lengur hátt launuð á landsvísu.

Úrræðin verða að skila vellaunuðum og fleiri störfum og fyrirtækjum sem eflast af starfsemi sinni. Aðgerðir í atvinnumálum eru lykillinn að því að snúa við þróuninni. Þær eiga að snerta sem flestar atvinnugreinar, en aðeins ein þeirra hefur það umfang og stærð í efnahagslífi fjórðungsins að þar verður hægt að sækja fram á skömmum tíma svo um munar. Það er sjávarútvegurinn. Sé ekki vilji til þess að hreyfa við neinu þar þá mun áfram verða sama íbúaþróun í mörg ár jafnvel þótt ýmislegt gott verði gert í öðrum atvinnugreinum. Því lengur sem undanhaldið varir þeim mun erfiðara verður að snúa við. Tíminn skiptir máli, við getum ekki beðið.

Það á að opna sjávarútveginn aftur og innleiða atvinnufrelsið. Atvinnufrelsið færir Vestfirðingum aðgang að fiskimiðunum og möguleika nýrra athafnamanna til þess að hasla sér völl í atvinnugreininni. Atvinnufrelsið er varið í stjórnarskránni og er virt í atvinnulífinu nema í sjávarútvegi. Þar ríkir lokað sérhagsmunafyrirkomulag. Því ástandi verður hrundið fyrr eða síðar, ef ekki af Alþingi þá af dómstólum.

Svar Frjálslynda flokksins er uppbygging á mörgum sviðum sem miðar að því að efla getu íbúanna til að sækja fram á eigin forsendum, fjölga störfum, auka fjölbreytni þeirra og hækka launin og gera fjórðunginn þannig jafnálitlegan kost til búsetu og önnur svæði landsins. Meiri iðn- og verkmenntun og stofnun sjálfstæðs háskóla strax eru grundvallaratriði. Stórstígar framfarir í samgöngum og fjarskiptum á næstu 4-6 árum verða að eiga sér stað. Þetta þýðir tvenn jarðgöng , ljúka uppbyggingu vega um Barðastrandarsýslu og Srandasýslu og tengingu milli norður og suðursvæðis Vestfjarða á þessum tíma , auk gsm-sambandi og almennilegri netvæðingu í þéttbýli og dreifbýli, svo það helsta sé nefnt.

En aðalatriðið er að færa Vestfirðingum aftur atvinnufrelsið í sjávarútveginum. Tillögur okkar afmarka núverandi kvótakerfi við það magn í þorski sem útgerðarmenn hafa að jafnaði haft til ráðstöfnunar síðatliðin 15 ár. Það eru um 170 þúsund tonn. Það fá núverandi handhafar að nýta áfram án nokkurra afskipta, svo lengi sem þeir vilja, meðan þeir nýta heimildirnar til þess að veiða. Enginn fyrning aflaheimilda og þeir þurfa ekki að borga neina leigu. En ætli þeir að leiga heimildirnar eða selja fá þeir ekki nema hluta af tekjunum í sinn vasa og fara verður eftir lögum sem sett verða um leigu og sölu heimilda.

Settur verður jafnstöðuafli 220 þúsund tonn á ári. Mismunurinn er 50 þúsund tonn sem verður leigður og hluti þess eða 20 þúsund tonn sérstaklega merkt sjávarplássum sem hafa búið við samdrátt á tímum framsalsins borið saman við önnur byggðarlög. Settar verða leikreglur um ráðstöfun aflaheimildanna sem miðast við víðtækari hagsmuni en útvegsmanna einna og færa byggðarlögunum meiri festu en nú er og sveitarfélögunum tekjur af viðskiptum með aflaheimildir. Með tímanum mun hlutur núverandi kvótahafa fara minnkandi eftir því sem þeir selja frá sér kvótann sem verður þá á hendi ríkisins og leiguhlutur aflaheimildanna mun fara vaxandi.

Svarið er: atvinnufrelsið aftur í sjávarútveginn.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður
www.kristinn.is