20/04/2024

Árneshreppur í verkefnið Brothættar byggðir

Þrjú byggðarlög á landinu hafa nú bæst í verkefni Byggðastofnunar sem ber yfirskriftina Brothættar byggðir. Þetta eru  Árneshreppur á Ströndum, Borgarfjörður eystri og Þingeyri í Ísafjarðarbæ. Innan vébanda verkefnisins er leitað lausna á bráðum vanda byggðarlaga vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi.

Á ruv.is er haft eftir Snorra Birni Sigurðssyni, forstöðumanni Þróunarsviðs Byggðastofnunar, að verkefnastjóri verði ráðinn á þessum stöðum, verkefnastjórn sett á laggirnar og haldin íbúaþing.

Heilsársbyggð í Árneshreppi stendur veikum fótum, sauðfjárbúum hefur farið fækkandi og tvö sumur í röð hafa komið fram efasemdir um að grunnskóli sveitarinnar, Finnbogastaðaskóli, yrði starfræktur. Á tímabili í sumar var einnig útlit fyrir að verslun Kaupfélags Steingrímsfjarðar í Norðurfirði yrði lokað. Samkvæmt heimildum strandir.saudfjarsetur.is eru 5 börn í Finnbogastaðaskóla í haust eins og síðasta haust og verslunin verður opin enn um sinn.