25/04/2024

Æðarkolluverkefni á Kirkjubóli

Á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð er í gangi verkefni sem snýst um að gera æðarvarp aðgengilegt fyrir ferðafólk. Í Orustutanga, sem er tanginn sem félagsheimilið Sævangur stendur á, verpa um það bil 30 æðarkollur og fólki er velkomið að rölta um tangann í rólegheitum og skoða varpið. Búið er að setja upp nokkrar fuglahræður sem vakta varpið og merkja æðarhreiðrin sjálf með litlum flöggum til að minni líkur séu á að fuglaskoðendur fæli fuglinn af hreiðrum eða stigið sé á þau.

Þá er þessa dagana unnið að gerð nokkurra upplýsingaskilta um svæðið, fjöruna og fuglalífið í samvinnu Sauðfjárseturs á Ströndum sem starfrækt er í Sævangi og Ferðaþjónustunnar á Kirkjubóli. Stefnan er að þau skilti verði sett upp í sumar, en þetta verkefni er styrkt af Pokasjóði og Umhverfissjóði.

Í gær var farin eftirlitsferð um varpið og merkt ný hreiður og eru hreiðrin í tanganum nú 26 talsins, en varptíminn dreifist nokkuð hjá æðarfuglinum. Fyrstu ungarnir eru þegar komnir á flot, en sumar kollurnar liggja ennþá á eggjum seinnipartinn í júní.

Öllum er velkomið að skoða sig um í fjörunni á Orustutanga, en auk æðarfuglsins búa þar kríur, tjaldar, teistur, sandlóur og fleiri fuglar. Reikna má með að íslenskar hænur bætist við í fuglaflóruna í sumar þegar hænuungar sem 1. bekkur Grunnskólans á Hólmavík unguðu út í vor og eru núna í búri inni á Sauðfjársetrinu, fá að fara út í sinn eigin hænsnakofa. Sjálfsagt er að nýta sér kaffistofuna í Sauðfjársetrinu í Sævangi í slíkum fjöruferðum og skoða sýningu safnsins, en Sauðfjársetrið er opið frá 10:00-18:00 alla daga í sumar.

1

Kirkjuból við Steingrímsfjörð í kvöldsólinni – þar er gistihús

bottom

Sjö fuglahræður hafa verið reistar í tanganum og hafa allar fengið nöfn. Hér má sjá Rasmus litla, Agnesi, Dóru og Dagrúnu. Tvær þeirra eru raunverulegar manneskjur

Rasmus hefur vakandi auga með ferðum tófunnar, Kirkjuskerið og Selströndin í baksýn

kirkjubol/580-kirkjubol-juni2007.jpg

Fuglahræðan Abel fylgist með mannaferðum

kirkjubol/580-kolluverkefni7.jpg

Ófeigur gamli hefur hins vegar staðið þarna í nokkur ár og er orðinn buxnalaus

kirkjubol/580-kolluverkefni5.jpg

Fuglahræðan Lofthæna og börnin að huga að æðarvarpinu í baksýn

kirkjubol/580-kolluverkefni4.jpg

Hreiðrin eru merkt með gulum flöggum

kirkjubol/580-kolluverkefni2.jpg

Tvær kollur á eggjum sínum í fjörunni

Unnið að merkingum undir miðnætti í gær – kvöldsólin komin bak við ský. Jón og Arnór á Kirkjubóli og Agnes fylgist með. Dagrún er með myndavélina.

Ljósm. Jón Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir