05/11/2024

Að loknum eldhúsdegi

Aðsend grein: Arnlín Óladóttir
Ég geri ráð fyrir að orðið eldhúsdagsumræða vísi til þess að þingmenn geri hreint fyrir sínum dyrum og beri á borð þau mál og þær hugsjónir sem þeir vilja berjast fyrir. Ég sé þingmenn fyrir mér ráðast á ryk og skúm og þegar allt er orðið skínandi hreint er sest niður yfir rjúkandi kaffibolla og  spáð í verkin framundan eins og í ábyrgu heimilishaldi.

Ég er ein af þeim sem finnst löngu tímabært að skipta um ríkisstjórn. Það er engum hollt að halda völdum of lengi, þá eykst hættan á valdahroka og spillingu, hugsjónir dofna og hætt er við að völdin sjálf verði í fyrirrúmi. Ég hef dauðans áhyggjur af því hugmynda- og kjarkleysi sem einkennir ríkisstjórnina og held að það bitni á allri nýsköpun í byggðum landsins. Ég er skíthrædd um velferðarkerfið, það hefur verið reytt af því hver fjöðurinn á fætur annarri og nú stendur ekkert eftir nema ber skrokkurinn. Mér finnst ósanngjarnt að við skulum þurfa að borga svimandi háa vexti og verðbætur í ofanálag á meðan bankarnir raka til sín fé. Og ég er fjúkandi reið yfir þeirri ósvinnu að gera okkur samábyrg í stríðsrekstrinum í Írak þar sem 300.000 manns hafa látið lífið og samfélagið verið lagt í rúst. Vissuð þið að 80% af olíulindum Íraka eru nú í höndum bandarískra og breskra olíufélaga? Til þess er nefnilega barist og þess vegna geta þeir ekki hunskast heim til sín, stríðsherrarnir.

Og hvað segja þeir svo stjórnarliðar í eldhúsdagsumræðu? Geir Haarde hamast á þeirri gömlu klisju að vinstri mönnum sé ekki treystandi fyrir ríkisfjármálunum. Segir hver? Forsætisráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem var í dag að fá falleinkunn hjá alþjóðlegu fjármálafyrirtæki vegna óstjórnar. Það kom einnig fram í fréttum í dag að hagfræðingar Samtaka Iðnaðarins og Alþýðusambandsins telja að þessi ómögulega hagstjórn kosti hverja fjölskyldu í landinu að meðatali hálfa milljón á ári og atvinnulífið enn meira. Jón Sigurðsson varaði kjósendur við að falla fyrir kosningaloforðum. Ójá, hvað flokkur hefur skrifað undir flest loforðin nú í aðdraganda kosninga – og síðustu kosninga – og þarsíðustu kosninga? Og hvað hefur verið staðið við af þeim loforðum? Dæmi hver fyrir sig.

Báðir leyfðu þeir kumpánar sér að tala um ábyrgð og festu eftir að hafa kastað íslensku samfélagi út í þá mestu rússíbanareið sem um getur. Það eina sem er fast í hendi ef þeir halda áfram um stjórnartaumana er að byggðum landsins mun halda áfram að hnigna eins og siðferði stjórnarinnar. Einu ráðin sem þeir hafa til að “framlengja framfaraskeiðið” eins og Geir nefndi það, er stóriðja ásamt meðfylgjandi hliðarverkunum og þenslu. Og svo skulu nýsköpunarfyrirtæki, ferðaþjónusta og almenningur borgar brúsann. Eina ráðið verður þá líklega að fresta framkvæmdum á landsbyggðinni – munið? Mér finnst hvorki sérlega hreint né sérlega uppbyggjandi umræður í eldhúsi ríkisstjórnarinnar.

Kosningaloforðin minna okkur á að okkar er valdið – og okkar er ábyrgðin. Við skulum láta málefnin ráða en ekki auglýsingastofur.

Arnlín Óladóttir, Bakka í Bjarnarfirði
Höfundur er formaður Samfylkingarfélags Strandasýslu